Riffelhorn

Eftir 3 daga í Chamonix sem við nýttum í göngu upp að Lac Blanc og hæðaraðlögun á Aguille Du Midi var kominn tími til að keyra til Zermatt þar sem við myndum hitta guide-inn okkar á Gornegrat lestarstöðinni kl 7:45 þann 14. júlí

 

Það sem við héldum að væri þægilegt ganga/brölt á Riffelhorn reyndist ekki alveg rétt. Guide-inn okkar leiddi okkur að “bakhlið” Riffelhorn þar sem sjálft klifrið hafðist. 6 spanna klifurleið sem heitir Egg og er með frönsku gráðuna 4b. Hvorugur okkar hafði tekist á við fjölspanna klifur áður og reyndist þetta ansi krefjandi á köflum. Reyndi kannski mest á taugarnar því þetta var feykilega bratt og ógnvekjandi 300m fall, nánast lóðbeint, niður í jökuldalinn fyrir neðan. En upp komumst við óskaddaðir og fengum hrós frá leiðsögumanninum sem taldi okkur hæfa fyrir Matterhorn.

 

Undirbúningur

Eftir að ákvörðun var tekin um að klifra Matterhorn þurfti að huga að búnaði og reyna búa sig líkamlega undir gönguna. Ég var svo heppinn að fá gjafabréf í fertugsafmælisgjöf sem ég gat nýtt til að kaupa það sem upp á vantaði í bakpokann.

Ég hafði fyrirfram ekki miklar áhyggjur af því að vera ekki í nógu formi fyrir gönguna en var með örlítinn kvíða fyrir brattanum og skorti á klifurreynslu.

Samkvæmt því sem ég hafði lesið var klifrið á Matterhorn sagt ekki tæknilega erfitt, bara 5.3 – 5.4. Vandamálið var bara að ég hafði ekki hugmynd um hvað þessar gráður þýddu. Ég fór því á byrjendakvöld í klifurhúsinu og spreytti mig á leiðum með sama erfiðleikastig. Það gekk að mestu vel en reyndist algjör ofraun fyrir viðkvæma skrifstofuputta.

1

Við Kjartan fórum líka í nokkrar fjallgöngur. Hæst ber að nefna ferð á Skessuhorn í apríl en við fórum líka á Esjuna, Þverfellshorn og Kistufell auk þess sem ég hélt áfram í hlaupaprógramminu mínu í undirbúningi fyrir Esjuhlaupið þar sem ég hljóp tvær ferðir á 2klst.

Næsta verkefni

Búin að vera töluverð lægð hérna á blogginu en eitt og annað verið brölt í millitíðinni samt. T.d. á Hvannadalshnúk með Eyja og félögum og Skessuhorn með Kjartani.

En núna er við Kjartan búnir að bóka ferð í Svissnesku Alpana í sumar þar sem við ætlum að gera atlögu að Mattehorn. Sem undirbúning förum við einnig á Riffelhorn sem er í forgrunni á myndi hér að neðan. Þar munu guide-arnir vega og okkur og meta. Vonandi munu þeir okkur ekki léttvæga finna því það getur gerst að guide-ar hafni göngumönnum og segi þeim að æfa sig betur fyrir Matterhorn.

riffel

Myndband frá hæðaraðlögun

Dagana fyrir gönguna nýttum við í hæðaraðlögun á Aguille Du Midi. Við vorum búnir að undirbúa okkur vel fyrir gönguna á Mont Blanc en hryggurinn sem við þurftum að ganga þarna yfir fyrstu dagana kom okkur algjörlega í opna skjöldu.

Alfreð setti saman myndband sem lýsir þessum aðstæðum nokkuð vel.

Lokadagur í aðlögun

Í dag var planið að taka því rólega uppi á Midi og vera bara túristar. Endaði að vísu á því að labba meira en 12km en bara á strigaskónum. Fórum upp og önduðum að okkur þunna loftinu, vöppuðum um og tókum myndir. Dagurinn byrjaði að vísu ekki sérlega vel því kláfurinn stoppaði örstuttu eftir að hann lagði af stað. Minnugir óförum þeirra sem máttu dúsa næstum sólarhring í kláf fyrir örfáum dögum þá var þetta frekar óþægileg tilfinning. En sem betur fer þá fór kláfurinn af stað nokkrum mínútum síðar.

Við erum búnir að liggja yfir netinu að athuga með aðstæður í fjallinu og fara tvær færðir á túristaskrifstofuna til að fá ráðleggingar og ákvörðun liggur fyrir. Í fyrramálið leggjum við í hann og komum okkur upp í Nid d’Aigle þar sem gangan hefst. Gangan byrjar um 9:30 að staðartíma og má reikna með að það taki 5 tíma að komast upp í Gouter skálann þar sem við munum hvíla okkur fyrir toppdaginn.

 

 

 

 

Dagur 2 á Midi

Annar bjartur og fallegur dagur í hæðaraðlögun. Byrjuðum daginn aðeins fyrr en í gær og kíktum við á Túrista skrifstofunni til að kanna hvernig væri með aðstæður í fjallinu. Fórum svo aftur upp með kláfnum upp á Aguille de Midi en gengum aðeins lengra inn á jökulinn í þetta skipti í áttina að Valle Blanche. Gengum meðal annars undir kláfana sem stoppuðu hér í gær og tugir fólks þurftu að eyða nóttinni þar uppi. Annars bara mikið af því sama og í gær. Nema þegar við komum upp af jöklinum hittum við 12 Íslendinga sem voru að ljúka við Tour de Mont Blanc göngunni í kringum fjallið. Nokkur þeirra ætla svo að vera hérna lengur og ætla sömu leið og við á Mont Blanc.

 

Spenningurinn fyrir toppferðinni orðinn ansi mikill og helst myndi ég vilja leggja af stað strax í fyrramálið en það verður að virða hæðina og halda áfram einn dag í viðbót í hæðaraðlögun.

Á toppnum sáum við 6 wingsuit gaura vera að gera sig klára og það var frekar magnað að sjá þá alla stökkva niður. Eitt af því sem er svo gaman við að vera hérna í Chamonix er að fylgjast með öllu þessu extreme íþróttafólki svífa hérna um loftin í paraglider eða wingsuit og klifrarana klífa upp snarbratta klettaveggi.

 

 

 

 

Fyrsti dagur í hæðaraðlögun

Við byrjuðum daginn á að finna búnaðarleigu þar sem strákarnir fundu sér gönguskó og brodda og héldum svo í kringum hádegi með kláfnum upp til Aguille De Midi. Magnað að ferðast með kláf á nokkrum mínútum úr 1000m hæð upp í 3800m. Útsýnið alveg magnað og maður er hálf agndofa að horfa á öll fjöllin í kringum sig.

Við dóluðum okkur aðeins uppi hjá lyftunni og fylgdumst með Wingsuit gaurum hoppa niður og gengum síðan stutta leið í Cosmiques skálann og tilbaka. Veðrið hefði ekki getað verið betra og frábær dagur á fjöllum.