Category Archives: Uncategorized

NA Hryggur Skessuhorns

Þetta er í annað skipti sem ég fer upp norðaustur hrygginn en í fyrsta sinn í alvöru vetraraðstæðum. Síðast þegar ég fór var kominn hálfgerður vorfílingur og þá var þetta meira klettabrölt í frekar ótraustu bergi en núna var snjór yfir öllu og nauðsynlegt að sveifla öxum. Virkilega skemmtileg leið á eitt fallegasta fjall landsins. Við tryggðum aðallega með snjóakkerum og einstaka sinnum með sling utanum kletta eða hlaupandi tryggingum.

Myndband frá ferðinni

Kirkjufell í Janúar

Í gær fórum við félagarnir upp á Kirkjufell. Það hefur lengi verið draumur að fara þarna upp að vetrarlagi og núna var rétta tækifærið enda var veðurspáin einstaklega góð. Við vorum svo heppnir að spáin rættist og við fengum alveg einstakan dag á fjallinu. Aðstæður voru fínar. Töluvert af snjó neðarlega í fjallinu en meiri klaki eftir því sem ofar dró. Gekk nokkuð greiðlega og hjálpaði mikið upp á rötun að hafa farið þarna áður að sumarlagi en þá er mun auðveldara að finna leiðina upp. En auðvitað nauðsynlegt að vera með allan vetrarbúnað í svona ferðir og vera með frekar meira en minna af öryggisbúnaði meðferðis.