Category Archives: Gönguskíði

Spor í Heiðmörk

Mikið hefur breyst á þeim stutta tíma sem ég flutti frá Noregi með mikla gönguskíðabakteríu. Þá var það hálfgert jaðarsport og lítið um brautir fyrir utan skíðasvæðin en á örskömmum tíma hefur orðið algjör sprenging í fjölda þeirra sem stunda skíðagöngu og í kjölfarið hefur fjölgað stöðunum sem hægt er að stunda sportið. Líklega á Landvættakeppnin stóran þátt í því en hluti af henni er Fossavatnsgangan á Ísafirði.

Skíðagöngufélagið Ullur hefur líka unnið mikið starf í að breiða út og efla íþróttina með betri aðstöðu í Bláfjöllum og sporagerð í Heiðmörk í samstarfi við Skógræktina. Fjölmörg önnur spor hafa skotið upp kollinum, m.a. á golfvöllum. T.d. hjá GKG og í Mosfellsbæ. Einnig á Kópavogstúni og Þingvöllum. Frábært framtak en að mínu mati brautin í Heiðmörk sú besta. Þar er notaður sérstakur vélsleði sem er sérútbúinn til að leggja spor og umhverfið auðvitað alveg einstakt.

Á miðri mynd er stjarna og þar hefst gangan. Best að ganga rangsælis og ágæt regla að halda sig hægra megin. Á Facebook síðu Ullar koma svo reglulega uppfærslur þegar sporið er endurnýjað eða fréttir af ástandi þess.