All posts by admin

Lokadagur í aðlögun

Í dag var planið að taka því rólega uppi á Midi og vera bara túristar. Endaði að vísu á því að labba meira en 12km en bara á strigaskónum. Fórum upp og önduðum að okkur þunna loftinu, vöppuðum um og tókum myndir. Dagurinn byrjaði að vísu ekki sérlega vel því kláfurinn stoppaði örstuttu eftir að hann lagði af stað. Minnugir óförum þeirra sem máttu dúsa næstum sólarhring í kláf fyrir örfáum dögum þá var þetta frekar óþægileg tilfinning. En sem betur fer þá fór kláfurinn af stað nokkrum mínútum síðar.

Við erum búnir að liggja yfir netinu að athuga með aðstæður í fjallinu og fara tvær færðir á túristaskrifstofuna til að fá ráðleggingar og ákvörðun liggur fyrir. Í fyrramálið leggjum við í hann og komum okkur upp í Nid d’Aigle þar sem gangan hefst. Gangan byrjar um 9:30 að staðartíma og má reikna með að það taki 5 tíma að komast upp í Gouter skálann þar sem við munum hvíla okkur fyrir toppdaginn.

 

 

 

 

Dagur 2 á Midi

Annar bjartur og fallegur dagur í hæðaraðlögun. Byrjuðum daginn aðeins fyrr en í gær og kíktum við á Túrista skrifstofunni til að kanna hvernig væri með aðstæður í fjallinu. Fórum svo aftur upp með kláfnum upp á Aguille de Midi en gengum aðeins lengra inn á jökulinn í þetta skipti í áttina að Valle Blanche. Gengum meðal annars undir kláfana sem stoppuðu hér í gær og tugir fólks þurftu að eyða nóttinni þar uppi. Annars bara mikið af því sama og í gær. Nema þegar við komum upp af jöklinum hittum við 12 Íslendinga sem voru að ljúka við Tour de Mont Blanc göngunni í kringum fjallið. Nokkur þeirra ætla svo að vera hérna lengur og ætla sömu leið og við á Mont Blanc.

 

Spenningurinn fyrir toppferðinni orðinn ansi mikill og helst myndi ég vilja leggja af stað strax í fyrramálið en það verður að virða hæðina og halda áfram einn dag í viðbót í hæðaraðlögun.

Á toppnum sáum við 6 wingsuit gaura vera að gera sig klára og það var frekar magnað að sjá þá alla stökkva niður. Eitt af því sem er svo gaman við að vera hérna í Chamonix er að fylgjast með öllu þessu extreme íþróttafólki svífa hérna um loftin í paraglider eða wingsuit og klifrarana klífa upp snarbratta klettaveggi.

 

 

 

 

Fyrsti dagur í hæðaraðlögun

Við byrjuðum daginn á að finna búnaðarleigu þar sem strákarnir fundu sér gönguskó og brodda og héldum svo í kringum hádegi með kláfnum upp til Aguille De Midi. Magnað að ferðast með kláf á nokkrum mínútum úr 1000m hæð upp í 3800m. Útsýnið alveg magnað og maður er hálf agndofa að horfa á öll fjöllin í kringum sig.

Við dóluðum okkur aðeins uppi hjá lyftunni og fylgdumst með Wingsuit gaurum hoppa niður og gengum síðan stutta leið í Cosmiques skálann og tilbaka. Veðrið hefði ekki getað verið betra og frábær dagur á fjöllum.

 

Mættir til Chamonix

Eftir gott flug með EasyJet til Genf erum við komnir til Chamonix og erum núna í góðu yfirlæti í AirBnb íbúðinni. Komum hingað frekar seint og allar búðir lokaðar þannig við erum búnir að tæma alla skápa í leit að einhverju ætilegu. Þurrt coco pops og brimsalt pasta var ágætis nætursnarl.

Á morgun byrjum við í hæðarlögun og tökum kláf upp á Midi sléttuna sem er í um 3800m hæð. Veðurspáin næstu daga lítur ljómandi vel út allt útlit fyrir góða daga á fjöllum.

veðrið.png

Búnaðarkapphlaupið

Blekið var ekki þornað á þarsíðustu bloggfærslu þar sem ég lýsti því yfir að ég myndi leigja skó þegar ég var skyndilega staddur í útivistarverslun spígsporandi í gönguskóm. Að taka hnjáhreyfingar og skekja mjöðmunum á þann sem eingöngu fólk í skókaupum gerir.

Hvort ástæðan sé ótti við tásvepp úr rökum og illa lyktandi leiguskóm eða sú staðreynd að Alfreð hafi nýlega keypt flottari jakka en ég látum við liggja milli hluta. Þetta er veruleikinn og ferðakostnaðurinn hækkar stöðugt.

aku-terrealte-gtx-trekking-shoes

Tíminn til að ganga þá til er knappur en kemur vonandi ekki að sök. Ég fór prufuferð á Esjuna í dag upp að Steini og óhætt að segja þeir lofi góðu. Hrikalega þægilegir og engin óþægindi gerðu vart við sig. Ég er reyndar svo slæmu vanur í gönguskó málum eftir 10 ár í Scarpa skóm sem voru amk númeri of litlir að allt sem passar er algjör bylting. Hvernig mér datt í hug að kaupa svona litla skó verður mér alltaf ráðgáta.

Rúm vika í brottför

Eftir 8 daga fljúgum við félagarnir til Genf þaðan sem við tökum bílaleigubíl og keyrum í bæinn Chamonix. Þar gistum við fyrstu dagana og förum í styttri ferðir til að aðlagast hæðinni. Við reiknum svo með, ef veður leyfir, að leggja af stað á tindinn á sunnudeginum 11. september. Þá tökum við lest upp í Nid D’Aigle (Arnarhreiðið) sem er í um 2700m hæð. Þar byrjar gangan upp í Gouter skálann þar sem við hvílum okkur fyrir toppdaginn.

route

Skálinn var vígður árið 2012 og er því nokkuð nýlegur og lítur eiginlega út eins og geimskip hafi lent þarna á fjallsbrúninni.

skálinn

Frá skálanum leggjum við af stað í niðamyrkri kl 2 um nóttina og ef allt gengur vel þá verðum við á toppnum rétt eftir sólarupprás.

Það er að ýmsu að hugsa síðustu dagana eins og t.d. skrá sig í austurríska alpaklúbbinn sem býður upp á alþjóðlega tryggingar fyrir félaga sína í ferðum eins og þessum. Tína til síðustu hlutina sem vantar á búnaðarlistann og refresha langtíma veðurspánna nokkrum sinnum á dag.

Útbúnaður

Það þarf víst að bera eitthvað upp á þetta blessaða fjall. Megnið af þessum búnaði átti ég fyrir þar sem mikið til er þetta sama og ég hef notað í fjallaskíðamennsku og hefðbundnum göngum hér heima. Keypti þó nýjan bakpoka og hjálm. Týpískir gönguskór duga ekki en ég ætla ekki að fara útí þá fjárfestingu og mun leigja mér skó. Tek bara með nóg af teipi á hælana.

 • Bakpoki 30-45L
 • Skel þ.e. vatns og vindheldur öndunarfatnaður, buxur og jakki
 • Stífir gönguskór (leigi þá úti)
 • Legghlífar
 • Innsta lag; síðerma ullarbolur og buxur
 • Göngubuxur
 • Göngusokkar 2-3 pör
 • Sólgleraugu og sólvörn
 • Skíðagleraugu
 • Fleece peysa
 • Dúnúlpa eða aukapeysa
 • Húfa – lambúshetta og venjuleg
 • Vettlingar – þunnir hanskar og belgvettlingar
 • Myndavél
 • Klifurbelti
 • Karabínur, prússikbönd og slingar
 • Ísexi
 • Hjálmur
 • Broddar
 • Snjóflóðaþrenning (Ýlir, skófla og stöng)

 

Hér er þetta myndrænt. Reyndar búnaðurinn sem ég tók með mér á Hrútfjallstinda. Tek ekki tjald og útilegu stól með mér til Frakklands.

búnaður

Ryksugan verður líka eftir heima.

Leggjabrjótur 

Fór Leggjabrjót í dag með Jónínu systur minni. Gengum frá Botni í Hvalfirði yfir í Svartagil við Þingvallavatn. Falleg leið sem var eitt sinn fjölfarin þjóðleið. Að mestu er fylgt ruddum vegi og frekar auðratað. Tæpir 16km með um 550m samtals hækkun. Við gengum leiðina á rétt tæpum 4 tímum.

Hrútfjallstindar 20. ágúst 2016

Nú styttist heldur betur í Alpaferðina og því tímabært að byrja að æfa sig. Í byrjun apríl þegar ferðin var plönuð vorum við með miklar yfirlýsingar um sumarið færi í fjallgöngur, æfingar á jöklum og annan nauðsynlegan undirbúning eins og sprungubjörgun og þess háttar. Eitthvað hefur orðið minna úr þessu en lagt var af stað með en ég hef þó verið duglegur að ganga á Esjuna og koma mér í hlaupaform.

Síðastliðinn sunnudag voru sléttar 3 vikur í að við verðum á toppi Mont Blanc, ef allt gengur að óskum. Ef Mont Blanc væri maraþonhlaup hefði síðasta langa æfingin verið á þeim degi. Því fórum við að velta fyrir okkur heppilegu fjalli og tókum við hálfgerða skyndiákvörðun að ganga á Hrútfjallstinda.

Hrútfjallstindar eru 4 glæsilegir tindar rétt fyrir vestan Hvannadalshnjúk. Sá hæsti, og sá sem við gengum á, er 1875mys. Gangan er tæknilega auðveld en löng og krefjandi í erfiðu og bröttu landslagi. Markmiðið með þessari ferð fyrir okkur var margþætt:

 • Góð líkamleg æfing í broddum og með þungan bakpoka
 • Fín leið til að fínpússa búnaðarlistann
 • Líkja sem mest eftir göngunni sjálfri

Við tjölduðum á föstudagskvöldinu á tjaldsvæðinu við Svínafell og eftir stuttan svefn og góðan morgunmat héldum við að stað að bílastæðinu við Illukletta þar sem gangan hófst.

Fengum frábæran dag. Byrjuðum í þoku en gengum uppúr henni og vorum á jöklinum í brakandi hita og blankalogni. Ég gerði engan veginn ráð fyrir þessum hita og gekk ber að ofan megnið af leiðinni. Lærdómur dagsins er því að gera ráð fyrir öllu. Líka steikjandi hita á jökli. Heildarvegalengdin sem við gengum var um 26km, samanlögð hækkkun 2200m á 14 klukkutímum. Hrikalega langt og lýjandi. Á tímabili var að hugsa hvað mig langaði bara alls ekki að gera eitthvað erfiðara og hættulegra eftir 3 vikur. Við ræddum hvort það væri ekki bara skemmtilegra að leigja falleg hjól með körfu framan á í Chamonix og skoða sveitina, blómin, sleikja ís og drekka bjór.