All posts by admin

NA Hryggur Skessuhorns

Þetta er í annað skipti sem ég fer upp norðaustur hrygginn en í fyrsta sinn í alvöru vetraraðstæðum. Síðast þegar ég fór var kominn hálfgerður vorfílingur og þá var þetta meira klettabrölt í frekar ótraustu bergi en núna var snjór yfir öllu og nauðsynlegt að sveifla öxum. Virkilega skemmtileg leið á eitt fallegasta fjall landsins. Við tryggðum aðallega með snjóakkerum og einstaka sinnum með sling utanum kletta eða hlaupandi tryggingum.

Myndband frá ferðinni

Kirkjufell í Janúar

Í gær fórum við félagarnir upp á Kirkjufell. Það hefur lengi verið draumur að fara þarna upp að vetrarlagi og núna var rétta tækifærið enda var veðurspáin einstaklega góð. Við vorum svo heppnir að spáin rættist og við fengum alveg einstakan dag á fjallinu. Aðstæður voru fínar. Töluvert af snjó neðarlega í fjallinu en meiri klaki eftir því sem ofar dró. Gekk nokkuð greiðlega og hjálpaði mikið upp á rötun að hafa farið þarna áður að sumarlagi en þá er mun auðveldara að finna leiðina upp. En auðvitað nauðsynlegt að vera með allan vetrarbúnað í svona ferðir og vera með frekar meira en minna af öryggisbúnaði meðferðis.

Desemberklifur

Við Alfreð erum búnir að vera duglegir í vetrarklifri núna i Desember og enn duglegri í myndatökum eiginlega. Sumir segja að við getum ekki farið á fjöll án þess að búa til kvikmynd um það.

7.12 fórum við í Búahamra og upp snjógil þar sem heitir Skarð. Frekar stutt og einfalt en eitt eða tvö höft sem var smá brölt að komast upp.

Þann 14.12 fórum við svo á suðvesturhorn Kistufell sem var stórskemmtileg vetrargönguleið. Það var ágætt veður en töluverður vindur sem truflaði þó lítið í gilinu sjálfu. En á toppnum var varla stætt. Upphaflega planið okkar var að rölta niður Gunnlaugsskarð en snar hættum við þegar lentum í vindinum. Stoppuðum því bara örstutt uppi og sigum niður brattasta hlutann og fórum sömu leið til baka. Hér er gpx skrá með track-i. Við gengum frá Völlum en sú leið hentar kannski betur ef farið er á SA-hornið. Okkur sýndist allavega ekki vera verra að koma Bibbuleiðina frá Esjustofu og mögulega hefði verið hægt að keyra eitthvað áleiðis eins og færðin var þegar við fórum.

Og rétt fyrir jól náðum við að prófa ísklifur. Við prófuðum þægilega leið í Mosfellsdal sem heitir Út af Sporinu. Þar í næsta gili voru líka tvær aðrar leiðir með sömu gráðu (WI2) sem væri gaman að prófa

Klifur Sumarið 2019

Eftir að hafa komist á bragðið á klifurnámskeiði í Klifurhúsinu síðasta haust fórum við félagarnir að fikra okkur áfram í sportklifri utanhúss. Það tók ekki langan tíma að ánetjast þessu nýja áhugamáli algjörlega og erum við búnir að vera duglegir að prófa hin ýmsu svæði og fullt af nýjum leiðum. Ótrúlega ánægður að hafa byrja í þessu sporti og pínu fyndið hvað þetta varð fljótt að mínu aðal áhugamáli.

NA Hryggur Skessuhorns

Í lok apríl fórum við Kjartan aftur á Skessuhorn nema í þetta sinn fórum við leiðina sem liggur eftir norðaustur hrygg fjallsins . Þetta er klassísk leið “Alpaleið” sem margir hafa farið. Skessuhorn er tignarlegt og frá áveðnu sjónarhorni virðist það smækkuð útgáfa af Matterhorn. Má segja eftirá að fara þessa leið hefði verið frábær undirbúningur fyrir Matterhorn ferðina en við guggnuðum á þessari leið fyrir ári sem var ágætt því þá höfðum við ekki rétta búnaðinn og eins hefði ég ekki viljað gera þetta án æfinganna i Klifurhúsinu í vetur. Þó klifrið sé ekki tæknilega erfitt þá er bergið gríðarlega laust í sér og munar miklu að vera öruggur í hreyfingum. Sennilega hefði verið betra að fara allavega 2 vikum fyrr á árinu því kaflarnir þar sem enn var snjór/klaki fannst mér öruggastir þar sem við gátum notað ísaxirnar en klettaklifrið á köflum var var pínu tæpt.

Leiðin sem fórum er merkt 22 á myndinni

Við lögðum af stað frá bænum Horni sem liggur við rætur fjallsins og tók okkur um klukkustund að komast á staðinn þar sem brattinn byrjar og við fórum í brodda. Færið þennan dag var reyndar þannig að við vorum að fara í og úr broddunm til skiptis.

Það gekk greiðlega til að byrja með að finna leiðina upp klettahöftin en þegar brattinn jókst hægðist á okkur þar sem það tók tíma að setja upp góðar tryggingar og eins vorum við ekki alltaf vissir að vera velja rétta leið. Þetta hafðist þó að lokum og við stóðum á tindinum 5 tímum eftir brottför. Við tók ganga niður hefðbundnu gönguleiðina á fjallið að sunnanverðu sem tók ca 2 klst.

sporið

Fyrst ég var að skrifa um gönguskíðasporið í Heiðmörk get ég ekki sleppt því að minnast á hitt Sporið. Sporið er tilraunaverkefni Icebike Adventures. Þeir hafa undanfarið rutt Ríkishringinn og hann hefur því verið fær fyrir gangandi, hlaupandi og hjólandi í vetur. Frábært framtak og ég er búinn að nýta mér þetta tvisvar nú þegar og á eflaust eftir að gera það aftur. Mæli með að fylgjast með Facebook síðunni.

Spor í Heiðmörk

Mikið hefur breyst á þeim stutta tíma sem ég flutti frá Noregi með mikla gönguskíðabakteríu. Þá var það hálfgert jaðarsport og lítið um brautir fyrir utan skíðasvæðin en á örskömmum tíma hefur orðið algjör sprenging í fjölda þeirra sem stunda skíðagöngu og í kjölfarið hefur fjölgað stöðunum sem hægt er að stunda sportið. Líklega á Landvættakeppnin stóran þátt í því en hluti af henni er Fossavatnsgangan á Ísafirði.

Skíðagöngufélagið Ullur hefur líka unnið mikið starf í að breiða út og efla íþróttina með betri aðstöðu í Bláfjöllum og sporagerð í Heiðmörk í samstarfi við Skógræktina. Fjölmörg önnur spor hafa skotið upp kollinum, m.a. á golfvöllum. T.d. hjá GKG og í Mosfellsbæ. Einnig á Kópavogstúni og Þingvöllum. Frábært framtak en að mínu mati brautin í Heiðmörk sú besta. Þar er notaður sérstakur vélsleði sem er sérútbúinn til að leggja spor og umhverfið auðvitað alveg einstakt.

Á miðri mynd er stjarna og þar hefst gangan. Best að ganga rangsælis og ágæt regla að halda sig hægra megin. Á Facebook síðu Ullar koma svo reglulega uppfærslur þegar sporið er endurnýjað eða fréttir af ástandi þess.

Ríkishringurinn

Ég tók saman í myndband upplýsingar og lýsingu á uppáhalds hlaupaleiðinni minni, Ríkishringnum í Heiðmörk. 

Ríkishringurinn er 12km löng og ákaflega vinsæl hlaupaleið í Heiðmörk. Leiðin hefst við bílastæðið hjá Helluvatni og hlaupinn er réttsælis hringur um skóginn og niður að Elliðavatni áður en komið er aftur á upphafspunkt. Mig langaði að taka saman upplýsingar og leiðbeiningar fyrir áhugasama utanvegahlaupara

Eins og fyrr segir hefst leiðin á bílastæði við Helluvatn og sjá á þessu korti frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur

Hægt að smella á myndina til að sjá stærri útgáfu

Og er Ríkishringurinn í raun sambland af fjórum merktum leiðum á Kortinu: Vatnahringur, Strípshringur, Skógarhringur og Norðmannahringur. Til að hitta á rétta leið er einfaldasta ráðið að beygja alltaf til vinstri en fara þvert yfir vegi.