NA Hryggur Skessuhorns

Í lok apríl fórum við Kjartan aftur á Skessuhorn nema í þetta sinn fórum við leiðina sem liggur eftir norðaustur hrygg fjallsins . Þetta er klassísk leið “Alpaleið” sem margir hafa farið. Skessuhorn er tignarlegt og frá áveðnu sjónarhorni virðist það smækkuð útgáfa af Matterhorn. Má segja eftirá að fara þessa leið hefði verið frábær undirbúningur fyrir Matterhorn ferðina en við guggnuðum á þessari leið fyrir ári sem var ágætt því þá höfðum við ekki rétta búnaðinn og eins hefði ég ekki viljað gera þetta án æfinganna i Klifurhúsinu í vetur. Þó klifrið sé ekki tæknilega erfitt þá er bergið gríðarlega laust í sér og munar miklu að vera öruggur í hreyfingum. Sennilega hefði verið betra að fara allavega 2 vikum fyrr á árinu því kaflarnir þar sem enn var snjór/klaki fannst mér öruggastir þar sem við gátum notað ísaxirnar en klettaklifrið á köflum var var pínu tæpt.

Leiðin sem fórum er merkt 22 á myndinni

Við lögðum af stað frá bænum Horni sem liggur við rætur fjallsins og tók okkur um klukkustund að komast á staðinn þar sem brattinn byrjar og við fórum í brodda. Færið þennan dag var reyndar þannig að við vorum að fara í og úr broddunm til skiptis.

Það gekk greiðlega til að byrja með að finna leiðina upp klettahöftin en þegar brattinn jókst hægðist á okkur þar sem það tók tíma að setja upp góðar tryggingar og eins vorum við ekki alltaf vissir að vera velja rétta leið. Þetta hafðist þó að lokum og við stóðum á tindinum 5 tímum eftir brottför. Við tók ganga niður hefðbundnu gönguleiðina á fjallið að sunnanverðu sem tók ca 2 klst.