Matterhorn

15. júlí

Eftir gönguna á Riffelhorn fengum við þær fréttir á Zermatters skrifstofunni að veðurspáin fyrir sunnudagskvöld og mánudagsmorgun liti ekki vel út, snjókoma og þrumuveður. Hluta af mér varð pínu létt, kannski yrði ekki af göngunni eftir allt saman. Miðað við hversu erfitt mér þótti klifrið á Riffelhorn var ég orðinn enn kvíðnari fyrir Matterhorn.  Við gáfumst samt ekki upp, þau sögðu okkur að koma aftur snemma á sunnudagsmorgninum og þá miðað við nýja veðurspá yrði tekin endanleg ákvörðun hvort við færum upp eða ekki. Með smá hnút í maganum gengum við inn á Zermatters skrifstofuna en fengum við þær fréttir að veðurspáin hefði breyst mikið og ekkert nema sól og blíða í kortunum.

Viðurkenni það að voru örlítið þung skref aftur upp á hótel þar sem ég þurfti að segja Laufey að það yrði svo úr ferðinni eftir allt saman en ég hafði eiginlega afskrifað þetta allt kvöldinu áður.

En það þýddi ekkert annað en að pakka í bakpokann og halda upp í Scwartzee með kláfnum. Þaðan var rúmlega tveggja tíma mjög róleg ganga upp í Hörnli skálann sem er í 3260m hæð. Skálinn var allur tekinn í gegn árið 2015 í tilefni af 150 ára afmæli fyrstu uppgöngunnar (Edward Whymper, 14. júlí 1865) og er einn glæsilegasti skáli sem ég hef séð. Þráðlaust net og uppábúin rúm. Þetta var minnti frekar á risavaxna orlofsíbúð i Munðarnesi frekar en fjallaskála á einu hættulegasta fjalli heims.

 

Við hittum guide-ana okkar í skálanum og borðuðum með þeim kvöldmat. Eftir kvöldmat var svo búnaðartékk og allt sem ekki var nauðsynlegt var skilið eftir í skálanum. Þeir lögðu mikla áherslu á að hafa pokana eins létta og hægt var.

 

16. júlí

Það var ræs á slaginu 3:00 og morgunmatur hálftíma síðar. Venjulega er skálinn allur iðandi af æstum fjallgöngumönnum á þessum tíma sem allir eru í kapphlaupi að verða fyrstir af stað en vegna þess hve veðurspáin hafði verið slæm fyrir daginn í dag voru ekki nema 2 önnur teymi á leiðinni á fjallið. Því var óvenju róleg stemning og við gátum gert okkur klára í “rólegheitum”.

Við lögðum af stað klukkan 4 um nóttina og eftir 5 mínútna göngu komum við að bröttum vegg sem og þar var þykkt reipi til að halda sér í. Eftir það tók við hlykkjótt en ekkert mjög bratt brölt í um 90 mínútur. En þá var sólin að koma upp og við tókum nestispásu í hellisskúta og slökktum á höfuðljósunum. Við tók nokkuð bratt klifur upp að Solvey skálanum og fyrir ofan hann var líka annar nokkuð brattur kafli. Þar settum við á okkur brodda. Ég var farinn að finna ágætlega fyrir hæðinni og fann ef ég tók of stór skref varð ég andstuttur.

Í um 4200 komum við að reipum sem hægt var að halda sér í brattasta hlutann upp snjóbreiðuna í átt að toppnum. Nokkuð krefjandi hluti vegna en þarna var maður farinn að sjá hvað það var stutt eftir og gekk nokkuð greiðlega að komast upp á sjálfan topp-hrygginn. Viðurkenni að það var reyndi svolítið á taugarnar að rölta eftir örmjóum hryggnum að toppnum.

Á leiðinni niður skiptumst við á að klifra og síga þar sem það var hægt. Á einum stað náði ég einhvern veginn að krækja mannbroddunum mínum saman með þeim afleiðingum að annar losnaði undan skónnum og rann niður bratta brekkuna. Á einhvern undraverðan hátt stoppaði hann samt áður en hann flaug fram af brúninni þa sem beið 2000m lóðbeint fall. Ég gat því andað léttar og guide-inn minn sagði að ég hlyti að vera heppnasti Íslendingur í heimi. En annars gekk gangan niður frekar vel. Var fljótlegt og þægilegt að síga niður þar sem það var hægt niður bröttustu kaflana sem Guide-arnir klifu svo niður eins og fjallageitur.

Það kom smá á óvart hve hlutinn sem við höfðum klifrað í myrkrinu um morguninn var í raun brattur.  Rétt rúmum 7 tímum eftir að við lögðum af stað komum við guide-inn minn skálann klukkan 10 mín yfir 11 og ég splæsti á hann verðskulduðum bjór.

 

Riffelhorn

Eftir 3 daga í Chamonix sem við nýttum í göngu upp að Lac Blanc og hæðaraðlögun á Aguille Du Midi var kominn tími til að keyra til Zermatt þar sem við myndum hitta guide-inn okkar á Gornegrat lestarstöðinni kl 7:45 þann 14. júlí

 

Það sem við héldum að væri þægilegt ganga/brölt á Riffelhorn reyndist ekki alveg rétt. Guide-inn okkar leiddi okkur að “bakhlið” Riffelhorn þar sem sjálft klifrið hafðist. 6 spanna klifurleið sem heitir Egg og er með frönsku gráðuna 4b. Hvorugur okkar hafði tekist á við fjölspanna klifur áður og reyndist þetta ansi krefjandi á köflum. Reyndi kannski mest á taugarnar því þetta var feykilega bratt og ógnvekjandi 300m fall, nánast lóðbeint, niður í jökuldalinn fyrir neðan. En upp komumst við óskaddaðir og fengum hrós frá leiðsögumanninum sem taldi okkur hæfa fyrir Matterhorn.

 

Undirbúningur

Eftir að ákvörðun var tekin um að klifra Matterhorn þurfti að huga að búnaði og reyna búa sig líkamlega undir gönguna. Ég var svo heppinn að fá gjafabréf í fertugsafmælisgjöf sem ég gat nýtt til að kaupa það sem upp á vantaði í bakpokann.

Ég hafði fyrirfram ekki miklar áhyggjur af því að vera ekki í nógu formi fyrir gönguna en var með örlítinn kvíða fyrir brattanum og skorti á klifurreynslu.

Samkvæmt því sem ég hafði lesið var klifrið á Matterhorn sagt ekki tæknilega erfitt, bara 5.3 – 5.4. Vandamálið var bara að ég hafði ekki hugmynd um hvað þessar gráður þýddu. Ég fór því á byrjendakvöld í klifurhúsinu og spreytti mig á leiðum með sama erfiðleikastig. Það gekk að mestu vel en reyndist algjör ofraun fyrir viðkvæma skrifstofuputta.

1

Við Kjartan fórum líka í nokkrar fjallgöngur. Hæst ber að nefna ferð á Skessuhorn í apríl en við fórum líka á Esjuna, Þverfellshorn og Kistufell auk þess sem ég hélt áfram í hlaupaprógramminu mínu í undirbúningi fyrir Esjuhlaupið þar sem ég hljóp tvær ferðir á 2klst.