Just jump, it’s long enough

Dagur 1 – Chamonix til Gouter

Við lögðum af stað frá Chamonix klukkan 8 á sunnudagsmorgninum. Keyrðum til Les Houches þar sem tókum kláf til Bellevue. Við vorum búnir að tala um að keyra þangað daginn áður til að finna stöðina svo þetta gæti gengið snuðrulaust en ákváðum svo að það væri óþarfi. Að sjálfsögðu villtumst við en það kom ekki að sök, við vorum komnir á lestarstöðina vel áður en fjallalestin kom. Þar hittum Magga og Möggu, sem voru að reyna við Mont Blanc í annað sinn. Voru hérna síðast í júní og allt á kafi í snjó og þau þurftu að hætta í 4400m. Með þeim var ítalski guide-inn Marco sem er búinn að fara svo oft á Mont Blanc að hann er hættur að telja ferðirnar. Við horfðum öfundaraugum á pokann hans Marco sem virtist vera fisléttur. “Everything you need” sagði Marco brosandi.

Lestin kemur í Bellevue

Mont Blanc Tramway lestin er fjórða hæsta fjallalest í Evrópu og sú hæsta í Frakklandi. Var opnuð 1907 og átti upphaflega að ná alla leið upp á Mont Blanc en framkvæmdum var hætt 1914 í Nid d’Aigle í  2372m hæð yfir sjávarmáli þar sem við stigum út og gangan hófst.

img_1560-1280x853

Lestin tæmdist af vel búnu göngufólki sem fór í halarófu upp grýttan stíginn. Frekar þægilegt til að byrja með en svo varð leiðin brattari upp að Tête Rousse skálanum (3167). Þar rétt fyrir neðan stoppuðum við til að fara í línu því framundan var Tête Rousse jökullinn og Grand Couloir, gil sem þarf að þvera og getur verið mjög hættulegt útaf grjóthruni sem verður þegar hlýtt er í veðri og steinarnir efst í gilinu losna.

Sem betur fer var ástandið ekki svona þegar við komum að gilinu:

Búið er að leggja stálvír yfir gilið sem hægt að tengja sig við áður en lagt er af stað. En stígurinn lá svo langt fyrir ofan vírinn að það var ómögulegt. Stígurinn var hins vegar nokkuð góður og engir steinar að falla þannig við gátum gengið nokkuð örugglega þarna yfir bundnir saman í línu. Eftir gilið tók við brattur klettaveggur upp að Gouter hryggnum. Á bröttustu köflunum er búið að setja stálvíra til að tryggja sig. Ekki tæknilega erfitt klifur en tók vel á lærvöðvana sem voru orðnir vel súrir þegar upp var komið.

Þaðan var þægileg ganga í Gouter skálann þar sem sem við áttum bókaða gistingu. Við vorum búnir að lesa hryllingssögur af þessum skála og sérstaklega skálaverðinum sem átti víst að vera einstaklega dónalegur. Þegar á hólminn var komið tók á móti okkur “Íslandsvinurinn” Remy sem var ekkert nema almennilegheitin. Hann að vísu komst ekki með fjölskyldunni til Íslands því hann er í skálanum frá byrjun maí til 5. október.

img_1634-1280x853
Skálavörðurinn Remy. Honum var ekki allof vel við myndatökur: “It’s the end of the season, my face doesn’t look nice”.

Skálinn sem er í  3835 metra hæð var vígður 2014 og er allur hinn glæsilegasti með gistipláss fyrir 120 manns. Byggingin tók 4 ár og kostaði hálfan milljarð. Þar var hægt að kaupa allt það nauðsynlegasta eins og t.d. vatn á 7 evrur og instant kaffi í skál á 4 evrur. Ekki samt diet kók eins og einhver  í skálanum spurði um. Held ég hafi aldrei séð meiri hneykslunarsvip eins og á afgreiðslumanninum sem sagði honum að þetta væri Mont Blanc og fólk þyrfti sykur og orku. Allar birgðir eru fluttar í skálann með þyrlu sem gerir þetta allt aðeins dýrara.

Sumir í skálanum voru greinilega ekki í góðum gír eftir að hafa farið upp á topp og við vorum allir að hugsa að mögulega gætum við verið í sömu sporum daginn eftir og þessi sem lá fram á borðið og var greinilega ekki á góðum stað.

img_0636-1280x853

Klukkan 18:30 var boðið upp á 3ja rétta kvöldverð: Einhverskonar grænmetissoð, kjöt og baunir og súkkulaðibúðing í eftirrétt. Eftir mat fórum við að gera pokana klára fyrir morgundaginn, tókum allt úr sem við þurftum ekki á að halda til að hafa bakana eins létta og hægt var. Uppúr 20 lögðumst við í koju til að reyna hvíla okkur en vorum flestir á einhverju brölti fram eftir kvöldi. Mögulega náði ég að dotta eitthvað en það var bæði heitt í svefnherberginu og erfitt að sofna í þessari hæð.

Dagur 2 – Mont Blanc 4810

Morgunmatur var klukkan 3 og þar biðu okkar skálar með instant kafi og brauð, ostar og sultur.

Við tókum okkur góðan tíma í að græja okkur og vorum síðastir af stað úr skálanum. Lögðum af stað klukkan 04:20 í svartamyrkri. Það var mögnuð upplifun að sjá öll höfuðljósin silast upp brekkuna í myrkrinu.

img_0645
Ljósin silast upp að Dome du Gouter

Rétt uppúr 7 kom sólin upp og þá áttum við um tvo klukktíma eftir á toppinn.

Leiðin á Mont Blanc frá Gouter skálanum er hvergi mjög brött eða tæknilega erfið en á nokkrum stöðum eru mjóir hryggir sem þarf að ganga yfir og geta verið varasamir. Sérstaklega í miklum vindi en við vorum einstaklega heppnir með veður í allri ferðinni og það var nánast logn þennan dag.

Ekki auðvelt að mæta öðrum hópum á Bosses hryggnum

Rétt fyrir ofan Vallot skálann (4362m) hittum við aftur Magga og Möggu sem voru brosandi og ánægð eftir að náð að komast á toppinn. Þau sögðu að við ættum stutt eftir en okkur fannst þetta vera ansi langur kafli. Við komum á toppinn 8:50 eftir um 4 og hálfs tíma göngu. Þar var fagnað, teknar nokkrar myndir og dáðst að útsýninu. En það þýddi ekkert að hanga of lengi þarna uppi

img_1665-1280x853
Á toppi Mont Blanc í 4810m hæð

Við vorum með hugann við að ná síðustu lestinni til baka frá Nid d’Aigle klukkan 17 og þurftum að drífa okkur niður. Við höfðum því litla þolinmæði að bíða eftir hópum sem voru að fara upp og niður þennan skorning þar sem bara einn hópur komst í einu. Neðst þurfti hoppa yfir ansi djúpa sprungu sem leit ekkert sérstaklega vel út. Þegar röðin var komin að okkur komu tveir franskir fjallahlauparar og ætluðu að troða sér fyrir framan Alfreð sem var fremstur í línunni okkar. Kjartan kallaði á hann að hleypa þeim ekki fram fyrir okkur en þetta endaði þannig að þeir tveir voru klemmdir á milli Alfreðs og Kjartans í neðst í þröngum skorningum og við allir bundnir saman í línu. Við vorum nú ekki vissir hvort línan væri nógu löng fyrir Alfreð að hoppa yfir sprunguna en fremri frakkinn var óþolinmóður og sagði: “Just jump, its long enough”

img_0654
Hér var var umferðaröngþveiti. Lið að koma niður og allt stopp lengi.

Rétt fyrir ofan Gouter skálann mættum við íslensku leiðsögumönnunum sem við höfðum hitt í Midi fyrir nokkrum dögum. Þau höfðu lagt af stað frá Tête Rousse skálanum um morguninn. Við fengum svo þær fréttir í dag að þau hefðu þurft að snúa við 300 metra frá toppnum útaf veðri.

Gangan tilbaka frá Gouter skálanum niður klettahrygginn að Tête Rousse og áfram niður í Arnarhreiðrið tók 3 klukkutíma og var kærkomið að sjá lestina renna í hlað akkúrat á sama tíma og við komum niður.

Það sem stendur uppúr ferðinni er hvað allt gekk einstaklega vel upp, veðrið lék við okkur allan tímann. Bara nokkrum tímum eftir að við vorum á toppnum skall á óveður og hópar þurftu að snúa við. Við vorum líka allir búnir reikna með að finna fyrir miklum óþægindum í þessari hæð en fengum ekki einu sinni hausverk sem er alveg magnað. Skemmtileg tilviljun líka að hitta alla þessa Íslendinga í fjallinu á sama tíma og við vorum að þvælast þarna.

One thought on “Just jump, it’s long enough”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *