Hrútfjallstindar 20. ágúst 2016

Nú styttist heldur betur í Alpaferðina og því tímabært að byrja að æfa sig. Í byrjun apríl þegar ferðin var plönuð vorum við með miklar yfirlýsingar um sumarið færi í fjallgöngur, æfingar á jöklum og annan nauðsynlegan undirbúning eins og sprungubjörgun og þess háttar. Eitthvað hefur orðið minna úr þessu en lagt var af stað með en ég hef þó verið duglegur að ganga á Esjuna og koma mér í hlaupaform.

Síðastliðinn sunnudag voru sléttar 3 vikur í að við verðum á toppi Mont Blanc, ef allt gengur að óskum. Ef Mont Blanc væri maraþonhlaup hefði síðasta langa æfingin verið á þeim degi. Því fórum við að velta fyrir okkur heppilegu fjalli og tókum við hálfgerða skyndiákvörðun að ganga á Hrútfjallstinda.

Hrútfjallstindar eru 4 glæsilegir tindar rétt fyrir vestan Hvannadalshnjúk. Sá hæsti, og sá sem við gengum á, er 1875mys. Gangan er tæknilega auðveld en löng og krefjandi í erfiðu og bröttu landslagi. Markmiðið með þessari ferð fyrir okkur var margþætt:

  • Góð líkamleg æfing í broddum og með þungan bakpoka
  • Fín leið til að fínpússa búnaðarlistann
  • Líkja sem mest eftir göngunni sjálfri

Við tjölduðum á föstudagskvöldinu á tjaldsvæðinu við Svínafell og eftir stuttan svefn og góðan morgunmat héldum við að stað að bílastæðinu við Illukletta þar sem gangan hófst.

Fengum frábæran dag. Byrjuðum í þoku en gengum uppúr henni og vorum á jöklinum í brakandi hita og blankalogni. Ég gerði engan veginn ráð fyrir þessum hita og gekk ber að ofan megnið af leiðinni. Lærdómur dagsins er því að gera ráð fyrir öllu. Líka steikjandi hita á jökli. Heildarvegalengdin sem við gengum var um 26km, samanlögð hækkkun 2200m á 14 klukkutímum. Hrikalega langt og lýjandi. Á tímabili var að hugsa hvað mig langaði bara alls ekki að gera eitthvað erfiðara og hættulegra eftir 3 vikur. Við ræddum hvort það væri ekki bara skemmtilegra að leigja falleg hjól með körfu framan á í Chamonix og skoða sveitina, blómin, sleikja ís og drekka bjór.

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *