Þumall

Þumall 27.8 – 29.8.2020

Við Alfreð og Kjartan skelltum okkur í mikla ævintýraferð síðasta fimmtudag þegar við ákváðum að bruna í Skaftafell og stefna á Þumal.

Þumall er blágrýtisdrangur í Skaftafellsfjöllum sem trónir 120m yfir nágrenni sínu við suðurbrún Vatnajökuls. Hann var talinn ókleifur þar til nokkrir öflugir Vestmanneyingar klifruðu hann fyrstir árið 1975. Maður skilur vel hvers vegna hann var talinn ókleifur þar sem maður stendur undir honum á hryggnum milli hans og Miðfellstinds. Þetta er ótrúleg smíð og eiginlega ekki hægt gera honum almennileg skil með myndum. En á vesturhlið Þumals er sérstök skora á miðjum veggnum sem gerir klifur frá þeirri hlið mögulegt og í raun ekki svo erfitt þó vissulega sé það alvarlegt þar sem afleiðingar af óhappi geta verið miklar á stað sem þessum.

Við lögðum af stað úr bænum 16 á fimmtudegi og vorum komnir í Skaftafell um 4 tímum síðar með stuttu stoppi á Kirkjubæjarklaustri. Við lögðum af stað á slaginu 20 með þunga poka inn í Kjós sem gekk frekar greiðlega fyrir utan það var örlítið snúið á köflum að finna réttan slóða í Bæjarstaðaskógi í kolsvartamyrkri. Það hafðist þó að lokum og við vorum komnir rúmlega 23 í Kjósina. Þar tjölduðum við og lögðumst fljótlega í svefnpokana. Það var magnað að vakna morguninn eftir og sjá alla litadýrðina sem blasti við úr tjaldinu. Kjósin er alveg einstakur staður.

Við gengum svo af stað um hálf níu. Einhverjir myndu kannski segja að brött gangan upp Vestara -Meingil væri aggressíf byrjun á deginum og óhætt að taka undir það. Í 750m hæð er komið í Hnútudal og þá sveigt til vinstri inn skáli og svo upp bratta stórgrýtta skriðu sem liggur upp á hrygg. Frá hryggnum er gengið í hliðarhalla að Þumli sem núna blasir við. Það er ekki vitlaust að tryggja þá leið yfir þennan hliðarhalla á versta kaflanum því þessi kafli er ansi brattur og má lítið útaf bregða. Þaðan er svo gengið niður hrygg og norður fyrir Þumal, út á jökul sem sprunginn. Aðkoman tók okkur um það bil 3klst.

Klifrið

Klifrið upp Þumal er ekki mjög erfitt og oftast ágætir tryggingamöguleikar. Millistansar eru yfirleitt góðir og þegar við fórum voru slingar og karabínur í þeim öllum sem við mátum nógu traust fyrir sigið niður en það verður hver og einn að meta ástand á þeim. Við notuðum annars mest vini á leiðinni en einnig stöku fleyg eða gamlar hnetur sem urðu á vegi okkar.

Spönn 1

Byrjar upp ljósa slabba og svo brölt yfir mjög laust grjót. Mikil hætta á grjóthruni fyrir þann sem tryggir. Eftir 15-20m er akkeri (fleygur og hneta) en betra að halda áfram upp að hafti. Þar er góður millistans, 3 fleygar. (45m ca)

Spönn 2

Byrjar upp brattan stromp en svo tekur við brölt upp skriður beint upp að háum vegg. Þar er beygt til hægri inn í sjálfa skoruna og upp á flatan kafla í millistans nr 2 (fleygar og hneta) (40m) 5.4/5.5 hreyfingar í byrjun en svo bara brölt.

Spönn 3

Upp úr skorunni og upp á SV hlið Þumals. Þar tekur við létt klifur upp stalla svo til hægri upp á hrygg. Vinstra megin á hryggnum er millistans. 3 fleygar (40m)

Spönn 4

Í þessari spönn eru í raun tveir möguleikar: Hægt að fara beint upp hrygginn og klifra upp bratta sprungu eða taka beygju til hægri fyrir horn og þaðan upp í millistans. Þaðan sést sjálfur blátoppurinn vel. Hann rúmar bara 1 í einu. (40m) eða (20 + 20)

Frá fjórða millistans er tæpur hryggur upp á topp og því sjálfsagt að tryggja þann kafla einnig og má jafnvel segja að það sé fimmta spönnin. Við sendum einn í einu upp á topp.

Sigið

Sigið tók dágóðan tíma m.a. þar sem önnur klifurlínan okkar skemmdist í tvígang á leiðinni upp þurftum við því nokkrum sinnum að síga yfir hnút. Við mælum annars með því að síga úr skorunni á einni línu niður í akkeri á beina veggnum við endann á skorunni og þaðan niður aftur á einni línu niður bratta strompinn (beint fyrir neðan akkeri) og loks alla leið niður á tveimur línum.

Niðurferðin

Við vorum ekki komnir niður af Þumli fyrr en um 21 og þá þegar aðeins byrjað að rökkva. Við lögðum því allt kapp á að drífa okkur til baka og komast sem fyrst yfir hliðarhallann fyrir myrkur. Það rétt hafðist en við tryggðum yfir þar sem hliðarhallinn var enn torfarnari í rökkrinu. Á niðurleiðinni urðum við svo að treysta á GPS og höfuðljós til að skila okkur í Kjós sem tókst áfallalaust en nokkrum sinnum urðum við að feta okkur til baka upp brekkurnar til að hitta á rétt track og komast á réttum stöðum yfir gilskorninga. Upphaflega planið okkar var að ganga beint í Skaftafell en við komum ekki niður í Kjós fyrr en rúmlega 12 á miðnætti og dagurinn orðinn alveg nógu langur og ákváðum að sofa frekar aðra nótt í Kjós og klára gönguna morguninn eftir. Ég hitaði mér frostþurrkað spaghetti bolognese sem var ansi kærkomin máltíð og við vorum fljótir að sofna. Daginn eftir pökkuðum við svo saman og héldum í Skaftafell.

NA Hryggur Skessuhorns

Þetta er í annað skipti sem ég fer upp norðaustur hrygginn en í fyrsta sinn í alvöru vetraraðstæðum. Síðast þegar ég fór var kominn hálfgerður vorfílingur og þá var þetta meira klettabrölt í frekar ótraustu bergi en núna var snjór yfir öllu og nauðsynlegt að sveifla öxum. Virkilega skemmtileg leið á eitt fallegasta fjall landsins. Við tryggðum aðallega með snjóakkerum og einstaka sinnum með sling utanum kletta eða hlaupandi tryggingum.

Myndband frá ferðinni

Kirkjufell í Janúar

Í gær fórum við félagarnir upp á Kirkjufell. Það hefur lengi verið draumur að fara þarna upp að vetrarlagi og núna var rétta tækifærið enda var veðurspáin einstaklega góð. Við vorum svo heppnir að spáin rættist og við fengum alveg einstakan dag á fjallinu. Aðstæður voru fínar. Töluvert af snjó neðarlega í fjallinu en meiri klaki eftir því sem ofar dró. Gekk nokkuð greiðlega og hjálpaði mikið upp á rötun að hafa farið þarna áður að sumarlagi en þá er mun auðveldara að finna leiðina upp. En auðvitað nauðsynlegt að vera með allan vetrarbúnað í svona ferðir og vera með frekar meira en minna af öryggisbúnaði meðferðis.

Desemberklifur

Við Alfreð erum búnir að vera duglegir í vetrarklifri núna i Desember og enn duglegri í myndatökum eiginlega. Sumir segja að við getum ekki farið á fjöll án þess að búa til kvikmynd um það.

7.12 fórum við í Búahamra og upp snjógil þar sem heitir Skarð. Frekar stutt og einfalt en eitt eða tvö höft sem var smá brölt að komast upp.

Þann 14.12 fórum við svo á suðvesturhorn Kistufell sem var stórskemmtileg vetrargönguleið. Það var ágætt veður en töluverður vindur sem truflaði þó lítið í gilinu sjálfu. En á toppnum var varla stætt. Upphaflega planið okkar var að rölta niður Gunnlaugsskarð en snar hættum við þegar lentum í vindinum. Stoppuðum því bara örstutt uppi og sigum niður brattasta hlutann og fórum sömu leið til baka. Hér er gpx skrá með track-i. Við gengum frá Völlum en sú leið hentar kannski betur ef farið er á SA-hornið. Okkur sýndist allavega ekki vera verra að koma Bibbuleiðina frá Esjustofu og mögulega hefði verið hægt að keyra eitthvað áleiðis eins og færðin var þegar við fórum.

Og rétt fyrir jól náðum við að prófa ísklifur. Við prófuðum þægilega leið í Mosfellsdal sem heitir Út af Sporinu. Þar í næsta gili voru líka tvær aðrar leiðir með sömu gráðu (WI2) sem væri gaman að prófa

Klifur Sumarið 2019

Eftir að hafa komist á bragðið á klifurnámskeiði í Klifurhúsinu síðasta haust fórum við félagarnir að fikra okkur áfram í sportklifri utanhúss. Það tók ekki langan tíma að ánetjast þessu nýja áhugamáli algjörlega og erum við búnir að vera duglegir að prófa hin ýmsu svæði og fullt af nýjum leiðum. Ótrúlega ánægður að hafa byrja í þessu sporti og pínu fyndið hvað þetta varð fljótt að mínu aðal áhugamáli.

NA Hryggur Skessuhorns

Í lok apríl fórum við Kjartan aftur á Skessuhorn nema í þetta sinn fórum við leiðina sem liggur eftir norðaustur hrygg fjallsins . Þetta er klassísk leið “Alpaleið” sem margir hafa farið. Skessuhorn er tignarlegt og frá áveðnu sjónarhorni virðist það smækkuð útgáfa af Matterhorn. Má segja eftirá að fara þessa leið hefði verið frábær undirbúningur fyrir Matterhorn ferðina en við guggnuðum á þessari leið fyrir ári sem var ágætt því þá höfðum við ekki rétta búnaðinn og eins hefði ég ekki viljað gera þetta án æfinganna i Klifurhúsinu í vetur. Þó klifrið sé ekki tæknilega erfitt þá er bergið gríðarlega laust í sér og munar miklu að vera öruggur í hreyfingum. Sennilega hefði verið betra að fara allavega 2 vikum fyrr á árinu því kaflarnir þar sem enn var snjór/klaki fannst mér öruggastir þar sem við gátum notað ísaxirnar en klettaklifrið á köflum var var pínu tæpt.

Leiðin sem fórum er merkt 22 á myndinni

Við lögðum af stað frá bænum Horni sem liggur við rætur fjallsins og tók okkur um klukkustund að komast á staðinn þar sem brattinn byrjar og við fórum í brodda. Færið þennan dag var reyndar þannig að við vorum að fara í og úr broddunm til skiptis.

Það gekk greiðlega til að byrja með að finna leiðina upp klettahöftin en þegar brattinn jókst hægðist á okkur þar sem það tók tíma að setja upp góðar tryggingar og eins vorum við ekki alltaf vissir að vera velja rétta leið. Þetta hafðist þó að lokum og við stóðum á tindinum 5 tímum eftir brottför. Við tók ganga niður hefðbundnu gönguleiðina á fjallið að sunnanverðu sem tók ca 2 klst.

sporið

Fyrst ég var að skrifa um gönguskíðasporið í Heiðmörk get ég ekki sleppt því að minnast á hitt Sporið. Sporið er tilraunaverkefni Icebike Adventures. Þeir hafa undanfarið rutt Ríkishringinn og hann hefur því verið fær fyrir gangandi, hlaupandi og hjólandi í vetur. Frábært framtak og ég er búinn að nýta mér þetta tvisvar nú þegar og á eflaust eftir að gera það aftur. Mæli með að fylgjast með Facebook síðunni.

Spor í Heiðmörk

Mikið hefur breyst á þeim stutta tíma sem ég flutti frá Noregi með mikla gönguskíðabakteríu. Þá var það hálfgert jaðarsport og lítið um brautir fyrir utan skíðasvæðin en á örskömmum tíma hefur orðið algjör sprenging í fjölda þeirra sem stunda skíðagöngu og í kjölfarið hefur fjölgað stöðunum sem hægt er að stunda sportið. Líklega á Landvættakeppnin stóran þátt í því en hluti af henni er Fossavatnsgangan á Ísafirði.

Skíðagöngufélagið Ullur hefur líka unnið mikið starf í að breiða út og efla íþróttina með betri aðstöðu í Bláfjöllum og sporagerð í Heiðmörk í samstarfi við Skógræktina. Fjölmörg önnur spor hafa skotið upp kollinum, m.a. á golfvöllum. T.d. hjá GKG og í Mosfellsbæ. Einnig á Kópavogstúni og Þingvöllum. Frábært framtak en að mínu mati brautin í Heiðmörk sú besta. Þar er notaður sérstakur vélsleði sem er sérútbúinn til að leggja spor og umhverfið auðvitað alveg einstakt.

Á miðri mynd er stjarna og þar hefst gangan. Best að ganga rangsælis og ágæt regla að halda sig hægra megin. Á Facebook síðu Ullar koma svo reglulega uppfærslur þegar sporið er endurnýjað eða fréttir af ástandi þess.